Sigmar Örn Aðalsteinsson, gusumeistari í Jaðarkoti í Flóahreppi, stendur nú fyrir söfnun á Karolina Fund, þar sem hann safnar fyrir saunabyggingu í Jaðarkoti. Þar mun hann bjóða upp á ýmsar tegundir af gusum.
Flestir þekkja sánur en sánugusa er nokkuð ný hér á landi. Sigmar útskýrir málið.
„Gusur eru yfirleitt þrjár 15 mínútna sánulotur með kælingu á milli. Kælingin getur verið allskonar. Til dæmis að fara út í sjó, vatn, læk eða kælipott en svo er líka bara hægt að standa úti í svalanum og á veturna geta þeir hörðustu velt sér uppúr snjónum. Hver gusumeistari hannar sínar lotur, þær geta verið allt frá djúpri hugleiðslu með öndunaræfingum og mikilli slökun til rokk- og teknógusa,“ segir Sigmar í samtali við sunnlenska.is.
„Ég hef stundað sánur um nokkurt skeið, féll algerlega fyrir gusum og dreif mig því í gusumeistaranám og hef einnig farið á nokkur námskeið sem fjalla um hinar ýmsu hliðar sánu. Rannsóknir sýna að sána hefur jákvæð áhrif á bæði líkama og sál. Sána eykur gleðihormónin dópamín og endorfín en á sama tíma lækka stresshormónið kortisol. Sána eflir ónæmiskerfið og hjarta og æðakerfin styrkjast,“ bætir Sigmar við.

Hver gusumeistari hefur sína aðferð
Í Sveita Sauna í Jaðarkoti, sem er við Kolsholt í Flóahreppi, er markmiðið að bjóða uppá ýmiskonar tegundir af gusum, ekki bara hjá Sigmari, heldur bjóða öðrum gusumeisturum að vera með sínar gusur, en hver gusumeistari er með sína aðferð og þema í gusunum og geta þær því verið margskonar.
„Söfnunin er á lokasprettinum og ég vil þakka þeim sem þegar hafa stutt við verkefnið. Við Sandra erum mjög þakklát fyrir allan þann stuðning og styrki sem við fáum og vonandi næst markmiðið okkar,“ segir Sigmar að lokum.
Söfnunin er í fullum gangi á Karolina Fund og lýkur um helgina. Herslumuninn vantar uppá að ná markmiðinu og þeir sem vilja leggja Sigmari lið geta gert það hér.


