Safnaði 200 þúsund krónum með hlaupi fyrir Kraft

Guðbjörg Þóra afhendir Huldu Hjálmarsdóttur, framkvæmdastjóra Krafts, styrkinn. Ljósmynd/Kraftur

Guðbjörg Þóra Guðmundsdóttir frá Kirkjuferju í Ölfusi hélt hlaup til styrktar stuðningsfélaginu Krafti í nágrenni Kirkjuferju fyrr í mánuðinum.

Hlaupið hélt hún í tilefni af 40 ára afmæli sínu og því að 5 ár væru liðin frá því að hún kláraði krabbameinsmeðferð. Allir þeir sem að tóku þátt í hlaupinu greiddu þátttökugjald til styrktar Krafti og einnig var hægt að gefa frjáls framlög.

Um var að ræða 10 kílómetra hlaup undir nafninu Guggan2019 og var fólki valfrjálst að hlaupa alla 10 kílómetrana eða snúa við þegar það gat ekki meira. Gaman er að geta þess að elsti þátttakandinn var 76 ára og sá yngsti 9 mánaða.

„Ég ákvað að halda hlaup til styrktar Krafti þar sem félagið er mér mjög hugleikið og hef ég sjálf greinst með krabbamein. Það var svo gaman þessa helgi og allir sem vettlingi gátu valdið hjálpuðu til við undirbúninginn og þetta var hreinlega dásamlegt í alla staði,“ segir  Guðbjörg. „Hvað eru svo sem smá harðsperrur ef maður getur lagt svona góðu málefni lið,“ sagði Guðbjörg líka skellihlæjandi þegar hún afhenti Huldu Hjálmarsdóttur, framkvæmdastjóra Krafts, styrkinn.

Alls söfnuðust 200.000 krónur sem Guðbjörg vildi ánafna í Neyðarsjóð Krafts sem styrkir einstaklinga sem lenda í fjárhagsörðuleikum vegna veikinda sinna.

Myndir frá hlaupinu má sjá á Instagram undir myllumerkinu #guggan2019.

Fyrri greinFjölnota íþróttahúsið á Selfossi boðið út
Næsta greinFlugslys á Haukadalsflugvelli