Safna undirskriftum vegna Hamarshallarinnar

Jóna Sigríður Gunnarsdóttir. Ljósmynd/Aðsend

Þessa dagana stendur yfir undirskriftarsöfnun í Hveragerði til að knýja fram borgarafund um málefni Hamarshallarinnar.

Jóna Sigríður Gunnarsdóttir, ábyrgðarmaður söfnunarinnar, segir að mikill styr hafi staðið um þá ákvörðun meirihlutans í Hveragerði að ætla sér að reisa Hamarshöllina aftur með sama formi og hún var.

„Meirihlutinn hefur ekki viljað hlusta á skoðanir annarra og uppástungur, hvorki minnihluta bæjarstjórnar né íbúa Hveragerðis heldur setti undir sig hornin og keyrði málið í gegn. Þar sem stór hluti bæjarbúa er ósammála því að vaða í þessa framkvæmd án þess að skoða fleiri kosti og stór hluti vill hafa eitthvað um málið að segja var ekki annað í stöðunni en að ráðast í þessa undirskriftarsöfnun,“ segir Jóna Sigríður.

Til þess að knýja fram borgarafund þarf undirskriftir 10% kjörbærra manna í bænum og er Jóna Sigríður bjartsýn á að það náist. Frestur til að skrifa undir er til miðnættis á fimmtudag og segir Jóna mikilvægt að sem flestir skrifi undir til að sína hve hópurinn er stór sem vill skoða málið betur.

Fyrri greinStarfsmenn slökktu í brennandi þvottavél
Næsta greinSelfoss með fullt hús stiga