Safna fyrir Berlínarferð

Ungir félagar í hestamannafélaginu Sindra í Vík tóku sig til um síðustu helgi og hreinsuðu í kringum dvalarheimilið Hjallatún í Vík.

Krakkarnir eru að safna fé fyrir ferð á heimsmeistaramót íslenska hestsins í Berlín í ágúst og hafa að sögn Petru Kristinsdóttur, formanns Sindra verið dugleg við að bjóða ýmsa þjónustu til að safna peningum í ferðina.

„Þetta eru tíu krakkar sem fara og fjórir fullorðnir með,“ segir Petra. Hún segir unga hestamenn vera stóran hluta félagsmanna í Sindra. „Það eru upp í 30 krakkar sem keppa hér á mótum,“ segir hún.

Krakkarnir halda söfnuninni áfram og hafa m.a. auglýst að þau bjóði einstaklingum að hreinsa garða og fleira. „Fólk hefur tekið þeim vel,“ segir Petra.

Fyrri greinSöluferli Ræktó gengur hægt
Næsta greinKjörfundur allstaðar hafinn