Safna fimm tonnum af melgresisfræi

Öflun og vinnsla fræja af landgræðsluplöntum er fastur þáttur í starfsemi Landgræðslunnar. Uppskerustörfin hófust nýlega með slætti á fræakri með íslenskum túnvingli.

Að þessu sinni verður safnað fræi af melgresi og túnvingli auk birkifræs síðar í haust.

Þýðingarmesta landgræðslutegundin er án efa íslenska melgresið og er mikil áhersla lögð á að safna fræi af þeirri tegund. Melfræinu er safnað á landgræðslusvæðum á nokkrum stöðum við strendur landsins með sérstökum sláttuvélum sem safna fræöxunum saman og síðan er fræið þreskt frá öxunum þegar það er komið í Gunnarsholt.

Sigurður heitinn Ásgeirsson, refaskytta og þúsundþjalasmiður í Gunnarsholti, smíðaði sláttuvélarnar sem nú eru notaðar.

Á vef Landgræðslunnar segir að eftir hlýtt en sólarlaust sumar séu gæði melfræsins rétt í meðallagi og er búist við að safnað verði allt að 5 tonnum af fullverkuðu fræi.

Fræið sem verið er að uppskera á Landeyjasandi verður að hluta til sáð aftur næsta vor í nágrenni við Landeyjahöfn þar sem Landgræðslan vinnur að heftingu sandfoks sem verktaki hjá Vegagerðinni. Við erfiðar aðstæður eins og þar þýðir ekki að sá neinni annarri tegund í upphafi baráttunnar við sandfokið.

Fyrri greinHúsnæðisskortur hamlar fjölgun íbúa
Næsta greinNagað birki á Almenningum