Safna aurum með áskorunum og fleiri góðum verkum

Svokallaðir Góðgerðardagar verða haldnir í fyrsta skipti í Fjölbrautaskóla Suðurlands í næstu viku. Þar munu nemendur skólans beita ýmsum meðulum til þess að safna fé fyrir verkefni Rauða krossins sem nefnist Börn í neyð.

Markús Árni Vernharðsson, formaður nemendafélags FSu, segir að hugmyndin hafi kviknað í vor í aðdraganda kosninga til nemendaráðs en verkefnið var eitt af kosningaloforðum Markúsar og félaga.

“Mér þótti skrítið að skóli af þessari stærðargráðu hafi ekki gert tilraun til að halda slíkan viðburð áður. Við höfum ákveðið að bíða aðeins með að setja okkur markmið í söfnuninni en það getur vel verið að við opinberum það þegar nær dregur. Við rennum dálítið blint í sjóinn með þetta þar sem þetta er í fyrsta sinn sem dagarnir eru haldnir,” sagði Markús Árni í samtali við Sunnlenska.

Fjölbreytt dagskrá verður á Góðgerðardögunum sem hefjast með flóamarkaði miðvikudaginn 3. október. Þar verða seld gömul föt og geta þeir sem vilja leggja málefninu lið komið fatnaði til nemendafélagsins inni á Hreiðri.

Á fimmtudagskvöldið verður stór kvöldvaka sem er opin öllum en dagskrá hennar verður kynnt þegar nær dregur. Tónlistaratriði verða í hádeginu alla daga en hápunktur góðgerðavikunnar er á föstudeginum, þann 5. október, þegar fram fer góðgerðaleikur í knattspyrnu milli nemenda og kennara. Í hálfleik framkvæma nemendur áskoranir sem þeir hafa fengið í áheitakerfi sem sett hefur verið upp.

“Ég brýt hér með ísinn með fyrstu áskoruninni og skora á Hjört Leó og Hermann Guðmundsson að klippa hárið á hvor öðrum og set 2.000 krónur á málefnið,” segir Markús Árni léttur og vonar að nemendurnir verði hugmyndaríkir þegar kemur að áskorununum.

Á laugardeginum verður síðan Gengið til góðs, á milli húsa á Selfossi með bauka frá Rauða krossinum og safnað peningum og ekki þarf að taka fram að allur ágóði af góðgerðardögunum rennur beint í þetta málefni.

Nemendaráðið og nefndir nemendafélagsins vinna af kappi að undirbúningi þessa dagana og óskar félagið eftir frjálsum framlögum frá fyrirtækjum sem langar að leggja sín lóð á vogarskálarnar í skiptum fyrir auglýsingar.

Facebooksíða Góðgerðardaganna


markus_arni240912gk_176588327.jpg
Markús Árni hefur skorað á Hjört Leó Guðjónsson að klippa hárið á Hermanni Guðmundssyni og öfugt. Hér reynir Markús skærin á Hirti. sunnlenska.is/Guðmundur Karl