Safnað fyrir utanspítalaþjónustu

Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna (LSS) hefur stofnað söfnunarreikning til styrktar og eflingar utanspítalaþjónustu á Íslandi.

Tilurð þessa er sú staða sem uppi er og hefur verið hvað viðkemur bráðaþjónustu utanspítala á Íslandi. LSS hefur af því miklar og þungar áhyggjur hve naumt er skammtað af fjármagni úr ríkisrekstri til málaflokksins og hefur sú staða allt of oft hamlað eðlilegri og nauðsynlegri framþróun.

Þessi reikningur er hugsaður til framtíðar og verður sérstaklega horft til menntunar og þjálfunarmála sjúkraflutningamanna, en menntun og þjálfun er að áliti LSS eitt dýrmætasta fjöregg utanspítalaþjónustunnar.

Vel má sjá fyrir sér einnig að fé verði veitt úr sjóðnum til kaupa á sérstökum bráðabúnaði sem viðurkenndar rannsóknir hafa sýnt fram á að skipti sköpum í sjúklingameðferð utanspítala og LSS vill auka vitund um.

Fyrsta verkefni sjóðsins verður söfnun til kaupa á sérstökum bíl ætluðum til hermiþjálfunar. Hermiþjálfun er ört vaxandi þáttur í menntun og þjálfun heilbrigðisstarfsfólks. Bíllinn yrði útbúinn sem sjúkrabíll með vönduðum hermidúkkum bæði í fullorðins- og barnastærð.

Það er bjargföst trú LSS að slíkur kennslu/þjálfunarbíll yrði bylting í eflingu menntunar og þjálfunar sjúkraflutningamanna sem og annarra er í utanspítalaþjónustu starfa á Íslandi. Sjúkraflutningamenn á Íslandi hafa kallað sterkt eftir úrbótum þar á.

Fyrirtæki, félagasamtök og einstaklingar sem styrkja myndu reikninginn yrðu sérlegir hollvinir utanspítalaþjónustu á Íslandi.

Númer reikningsins er: 0515 – 26 – 245 og kennitala: 701173 – 0319​