Um tvöleytið í dag voru björgunarsveitir frá Hellu og Hvolsvelli auk hálendisvaktar björgunarsveita kallaðar út vegna konu sem er talin fótbrotin á Laugaveginum.
Konan er staðsett efst í Jökultungum sem eru á milli Álftavatns og Hrafntinnuskers.
Í tilkynningu frá Landsbjörgu segir að rólega gangi að koma konunni að bíl enda Jökultungur snarbrött brekka sem að öllu jöfnu þarf að ganga mjög rólega niður hvað þá þegar feta þarf niður skriðurnar berandi börur.
Reikna má með að 2-3 klukkustundir í viðbót taki að koma göngukonunni að björgunarsveitarbíl sem mun flytja hana til byggða að sjúkrabíl.
UPPFÆRT KL. 17:49: Fjöldi björgunarfólks hefur komið að björgun konunnar. Núna kl. 17:45 er þyrla Landhelgisgæslunnar komin á staðinn og mun flytja konuna á Landspítalann og vera þar að nálgast sjö. Aðkoma þyrlunnar sparar mikla vinnu en fyrst og fremst er það betra fyrir þá slösuðu.