Sælkeraverslun við Austurveginn

Fjallkonan, sælkerahús, er nafnið á nýrri verslun sem opnuð verður á Selfossi á næstunni í gamla Bankahúsinu við Austurveg, í sama húsnæði og Sjafnarblóm er til staðar.

„Við ætlum að opna um miðjan júlí, þetta verður sælkeraverslun með vörur beint frá bændum hér á Suðurlandi,“ segir Elín Una Jónsdóttir en hún og mágkona hennar, sr. Sigrúnu Óskarsdóttir, eru eigendur verslunarinnar.

„Það er svo ótrúlega margt sem framleitt er hér á landi sem okkur langar að hafa á boðstólnum,“ segir Una. Nefnir hún áherslu á lífrænt, íslenskt, beint frá býli og svokallað „slow food“.

Elín Una, sem ættuð er frá Högnastöðum 2 í Hrunamannahreppi segir hugmyndina hafa vaknað á meðan hún gekk með barn í vetur. „Ég var kyrrsett í janúar og það má segja að eftir að hafa raðað öllum myndunum og prjónað mikið, var hausinn að springa og þá datt mér í hug að gera svona viðskiptaáætlun,“ segir hún.

Þær mágkonurnar skipta með sér verkum að sögn Unu. „Við erum að gera þetta af því að okkur langaði að gera eitthvað skemmtilegt,“ bætir hún við. Auk íslenskra afurða verða innfluttar sælkeravörur, svo sem ólífur, gæsalifur, ostar og annað. „Hér verður líka hægt að gæða sér á kaffi, beint frá býli í Kólumbíu,“ segir Elín Una létt í bragði á bakvið búðarborðið.

Fyrri greinLay Low spilar á Sólheimum
Næsta greinMisstu niður tveggja marka forskot