Sækja slasaðan skíðamann á hálendið

Um klukkan fimm í dag voru björgunarsveitir á Suðurlandi kallaðar út til hjálpar slösuðum gönguskíðamanni á hálendinu.

Maðurinn er einn á ferð og náði sjálfur að kalla eftir hjálp, hann er vel útbúin og hefst við í tjaldi um 20 kílómetra suður af Hofsjökli.

Fimm hópar björgunarsveitarfólks ásamt sjúkraflutningamönnum af Suðurlandi eru á leiðinni til mannsins á bílum og snjósleðum.

UPPFÆRT 19:30:

Tveimur tímum eftir að útkallið barst var björgunarsveitarfólk komið að manninum þar sem hann hafðist við í tjaldi og hafði sett upp rautt flagg. Ástandið á honum var nokkuð gott miðað við aðstæður og veðrið með ágætum, sól en þónokkur vindur.

Björgunarsveitafólkið skoðaði manninn og hlúði að honum, verður hann fluttur með björgunarsveitarbíl að sjúkrabíl frá Heilbrigðisstofnun Suðurlands sem er við Hrauneyjar.

Maðurinn sem hefur verið á ferð suður yfir hálendið síðustu daga virðist af gert nánast allt rétt. Hann var vel útbúin með GPS tæki, neyðarsendi og hafði skilið eftir ferðaáætlun og upplýsingar um sig á Safetravel.is. Það auðveldaði aðgerðina mjög mikið og voru viðbragðsaðilar í góðu sambandi við hann allan tímann.

Í tilkynningu frá Landsbjörgu segir að ferðafólk sem skilur eftir ferðaáætlanir á Safetravel.is geti valið það að áætlunin sé vöktuð. Haldi menn ekki ferðaáætlun af einhverjum orsökum er viðbragðsaðilum gert viðvart og eftirgrennslan fer í gang. Það er því mikið öryggi fólkið í því að skila eftir ferðaáætlun á vefnum.


Maðurinn hafðist við í tjaldi og hafði sett upp rautt flagg. Ljósmynd/Flugbjörgunarsveitin Hellu

Fyrri greinGóður sigur Hamarskvenna
Næsta greinUmferðartafir á Sólheimasandi