Sælkerastund á Hendur í Höfn

Hinn heimsþekkti sælkerakokkur Nicolas Vahé mun heimsækja Hendur í höfn í Þorlákshöfn í dag. Þar mun hann dekra við bragðlaukana á sannkallaðri sælkerastund kl. 17-19 og eru allir hjartanlega velkomnir á meðan húsrúm leyfir.

Nicolas Vahé hefur getið sér gott orð fyrir sína einstöku hæfileika sem kokkur. Hann byrjaði mjög ungur að starfa sem slíkur og aðeins 18 ára gamall var hann útskrifaður og farinn geta sér gott orð fyrir sína sérstöðu í matargerð, bakstri og súkkulaðigerð.

Hann hefur starfað á mörgum af þekktustu veitingahúsum í Danmörku og Frakklandi, þar sem hann hefur haft það að leiðarljósi að notast við hráefni úr nánasta umhverfi og færa hefðbundnar uppskriftir í nútímalegri útfærslur.

Vegna ástríðu sinnar fyrir matargerð hóf hann framleiðslu á lífsstílstengdri matvöru árið 2007 þar sem hann leggur mikla áherslu á að gæði og gott bragð fari saman.

Dagný Magnúsdóttir í Hendur í höfn segir að það sem geri vörur Vahé sérstakar er að þær er án aukaefna og samsettar úr svo skemmtilega ólíkum og spennandi hráefnum. „Við höfum notað þessa vöru mikið og kryddin eingöngu í okkar matargerð síðan farið var að selja vöruna hérlendis. Ég tók hana svo í sölu í sumar og nota hana að mestu í mína matargerð því þetta eru hráefni sem ekki fást í íslenskri matvælaframleiðslu,“ segir Dagný og bætir við að það sé mikill heiður að fá Vahe í heimsókn.

„Þetta er einstakur viðburður sem enginn sælkeri ætti að láta framhjá sér fara en Nicolas verður með smakk og kynningu á þeirri frábæru sælkera matvöru sem hann er að gera og Hendur í höfn er eini veitingastaðurinn á landinu sem hann heimsækir í þetta sinn,“ sagði Dagný ennfremur.