Sækja ferðamann inn á Vatnajökul

Liðsmenn Björgunarfélags Hornafjarðar fóru í kvöld inn á Vatnajökul til að sækja erlendan ferðamann sem óskaði aðstoðar í dag. Hann er ferð með tveimur félögum sínum en treystir sér ekki til að halda ferðalaginu áfram.

Mennirnir hugðust þvera jökulinn frá Lambatungujökli að Grímsvötnum og eru á þriðju dagleiðinni. Þeir eru nú komnir um 15 kílómetra inn á jökulinn og eru staddir austarlega á honum.

Veðurspáin fyrir svæðið er mjög slæm, en veður fer að versna upp úr klukkan átta í kvöld. Björgunarmenn ætla að gera ferðalöngunum tveimur er hyggjast halda ferðinni áfram grein fyrir útlitinu og reyna að fá þá til að koma niður af jöklinum með björgunarsveitamönnunum.

Reiknað var með að vélsleðamenn björgunarfélagsins yrðu komnir að mönnunum um klukkan 18.

Fyrri greinKonan var með leikfangabyssu
Næsta greinArnar Bjarki rétt marði Bjarna