Sækist eftir varaformannsstól

Sigurður Ingi Jóhannsson, þingmaður Framsóknarflokksins í Suðurkjördæmi, hefur gefið út að hann hyggist bjóða sig fram til varaformanns Framsóknarflokksins á næsta flokksþingi.

Þessu lýsti Sigurður Ingi yfir á Facebooksíðu sinni í gær. Fyrr um daginn hafði Birkir Jón Jónsson, varaformaður flokksins, tilkynnt að hann hygðist ekki sækjast eftir endurkjöri í næstu alþingiskosningum.

“Birkir Jón lýsir yfir að hann ætli ekki að gefa kost á sér í vor. Efst í mínum huga er þakklæti til hans. Ein vika er langur tími í pólitík. Á næsta flokksþingi verður því kosið um varaformann – ég hyggst sækjast eftir stuðningi Framsóknarmanna til þeirra trúnaðarstarfa,” sagði Sigurður Ingi á Facebooksíðu sinni.