Sædís Ósk hætt í Vinstri grænum

Sædís Ósk Harðardóttir á Eyrarbakka hefur sagt sig úr Vinstri hreyfingunni – grænu framboði.

Sædís átti sæti í varastjórn Vg og hefur gegnt ýmsum trúnaðarstörfum fyrir flokkinn. Hún skipaði 3. sæti á lista Vg fyrir sveitarstjórnarkosningarnar í Árborg í vor og sat í félagsmálanefnd Árborgar fyrir hönd Vg.

„Maður gerir mörg mistök um ævina, maður veðjar á rangan hest og það hef ég gert oftar en einu sinni í hinu pólitíska umhverfi, “ segir Sædís á bloggsíðu sinni.

„Ég er fegin að tilheyra ekki lengur flokki sem hefur svikið öll sín „prinsipp“ mál. Ég hélt að sá flokkur sem ég tilheyrði léti sér hag almennings meira varða. Nú er lítill munur á Vg og Sjálfstæðisflokknum. Fjármagnseigndur eru þeir sem skipta öllu máli greinilega,” segir hún ennfremur en skrifin koma í kjölfar úrskurðar Hæstaréttar um vexti á gengistryggðum lánum í gær.

Sædís segist ekki hafa fundið sér nýjan vettvang í stjórmálum en segist vona að stofnaður verði sterkur vinstri flokkur sem hefur hagsmuni almennings að leiðarljósi.