Sædís Íva í Arion banka

Sædís Íva Elíasdóttir, framkvæmdastjóri Atvinnuþróunarfélags Suðurlands hefur verið ráðin útibússtjóri Arion banka á Selfossi og um leið svæðisstjóri bankans á Suðurlandi.

Hún var ráðin úr hópi 32 umsækjenda og mun væntanlega taka við nýja starfinu í byrjun apríl.

„Nýja starfið leggst mjög vel í mig og ég hlakka til að takast á við þær áskoranir sem bíða á nýjum vettvangi. Það mun tvímælalaust hjálpa mér að þekkja starfssvæðið vel. Vissulega mun ég sakna Atvinnuþróunarfélagsins og þá sérstaklega frábærra samstarfsfélaga sem þar eru,“ segir Sædís Íva sem hefur starfað hjá AÞS síðan 1999 og verið framkvæmdastjóri félagsins sl. fjögur ár.

Sædís Íva er fædd í Reykjavík 1967, rekstrarfræðingur frá Bifröst og er með MBA gráðu frá Háskóla Íslands. Hún er búsett í Vík í Mýrdal ásamt eiginmanni, Grétari Einarssyni og þremur börnum.

Á fundi stjórnar AÞS í dag samþykkti stjórn Atvinnuþróunarfélags Suðurlands að leitað verði til Steingerðar Hreinsdóttur, starfsmanns AÞS, að hún taki að sér starf framkvæmdastjóra tímabundið.