Sæðingar skila hagkvæmni

„Til lengri tíma litið eru kúabú í Árnessýslu að verða hagkvæmari en önnur kúabú á Suðurlandi vegna góðrar nýtingar á kynbótanautum,“ segir Guðmundur Jóhannesson, nautgriparæktarráðunautur hjá Búnaðarsambandi Suðurlands.

Samkvæmt nýútkomnum skýrslum um nautgriparækt á Suðurlandi er afar misjafnt á milli sýslna í hversu miklum mæli notast er við sæðingar á kvígum í stað heimanauta. Hæst er tíðnin í Árnessýslu þar sem bændur láta sæða 56% af öllum kvígum. Hlutfallið er 43% í Austur-Skaftafellssýslu, 33% í Rangárvallasýslu en aðeins 27% kvíga í Vestur-Skaftafellssýslu eru sæddar. Að meðaltali voru sæddar kvígur á 176 búum af um 250 búum hér á Suðurlandi.

Guðmundur segir að bændur sem nota kynbótanaut fái betri kvígur og auki þannig hagkvæmni búsins.

Guðmundur hefur ekki skýringar á reiðum höndum fyrir því hvers vegna bændur nýta kynbótanautin jafn lítið sem raun ber vitni. Telur hann ástæðurnar ekki fjárhagslegs eðlis. Búnaðarsambandið þurfi að herða róðurinn og hvetja bændur til að nýta kynbótanautin betur.

Fyrri greinKæra fyrirhugað fjarskiptamastur
Næsta grein„Stattu upp“ komst áfram