Rysjóttur vetur framundan

Fyrsti vetrardagur er í dag og samkvæmt spámönnum á Dvalarheimilinu Lundi á Hellu er rysjótt tíð framundan.

Veðurklúbburinn á Lundi hittist á hálfsmánaðar fresti og birtir veðurspár sínar í Sunnlenska fréttablaðinu.

Á síðasta fundi spáðu menn í komandi vetur og virðist á spám fundarmanna að rysjóttur vetur sé framundan. Kristinn Helgason benti á það á fundinum að vetrarkvíði hafi verið á jörð og boðar það harðan vetur.

Sigrún Haraldsdóttir segir að enginn haustkálfur hafi komið ennþá og hún á von á snjóléttum vetri.

Við þetta má bæta að vísindaleg athugun sunnlenska.is bendir til að norðlægar vindáttir verði ríkjandi í vetur. Flestar músarholur sem hundur ritstjórans hefur fundið hér í Sandvíkurhreppnum snúa til suðurs.