Rýmingu aflétt á Höfðabrekku

sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Rýmingu tveggja húsa við Höfðabrekku í Mýrdal vegna yfirvofandi snjóflóðahættu hefur verið aflétt. Lögreglan á Suðurlandi biður fólk hinsvegar að gæta að sér á ferðum sínum undir bröttum hlíðum næstu daga því úrkoma á svæðinu hefur verið það mikil að víða getur verið hætta á að spýjur hlaupi fram, einkum í fjalllendi.

Á vef safetravel.is er að finna leiðbeiningar um ferðalög undir bröttum hlíðum og í fjallendi.

Snjór er á vegum um allt vestanvert Suðurland og er mikilvægt fyrir ferðalanga að kynna sér upplýsingar um færð og veður og gæta þess að ökutækin sem farið er á séu búin til vetraraksturs. Þá er líka mikilvægt að hafa í huga að hversu vel búinn sem bíllinn er þá þarf skyggni að vera þannig að ökumaður sjái alltaf í tæka tíð ef einhver eða eitthvað er á vegi framundan.

Í tilkynningu frá lögreglunni segir að því miður séu nýleg dæmi um það að ekið hafi verið á gangandi vegfarendur þar sem þeir voru að vinna að því að losa ökutæki sem stóðu föst á vegi.

Vanbúinn bíll gæti þýtt vandræði fyrir þig og aðra
Í ljósi atburða undanfarinna daga vill Slysavarnafélagið Landsbjörg hvetja alla til að huga vel að útbúnaði bifreiða sinna. Ferðalag á vanbúnum bíl getur ekki bara þýtt vandræði fyrir bílstjóra hans, heldur marga aðra sem ekki komast framhjá.

Það er gott að vera með skóflu í bílnum. hlý vetrarföt og góða skó, ef þú þarft að fara út í veðrið til að moka upp bílinn, eða aðstoða aðra. Ef þú lendir í vandræðum og þarft aðstoð, ekki hika við að hringja í 112.

Fyrri greinHeimamenn buðu lægst í leikskólagötuna
Næsta greinVerkefni um sérhæfða þjónustu í geðhjúkrunarrýmum framlengt