„Rýmingin gekk vel“

Þrátt fyrir að veður á Selfossi sé stillt berst þykkur og eitraður reykur frá eldinum í Plastiðjunni yfir Hagahverfið á Selfossi sem hefur verið rýmt.

Vegna þessa hefur verið opnuð fjöldahjálparstöð í Vallaskóla og björgunarsveitarmenn gengu í hús Úthaga, Nauthaga, Laufhaga, Lambhaga, Reyrhaga, Heimahaga og Grashaga og upplýstu fólk fólk.

„Við rýmdum Hagahverfið eins og það lagði sig, sem og göngustíginn milli Gagnheiðar og Hagahverfis. Síðan erum við að vinna að lokunum og frekara rýmingarskipulagi ef til þess kemur,“ sagði Tryggvi Hjörtur Oddsson, vettvangsstjóri björgunarsveitanna, í samtali við sunnlenska.is.

„Íbúarnir í Hagahverfi hafa kost á því að koma sér í skjól það sem það getur fengið inni hjá vinum og vandamönnum eða í fjöldahjálparstöð í Vallaskóla. Við göngum hús úr húsi og bönkum uppá og tryggjum að það sé enginn heima og ekkert fólk á svæðinu,“ sagði Tryggvi Hjörtur ennfremur.

„Við erum búin að kalla út allar björgunarsveitir í Árnessýslu til þess að hjálpa okkur við verkið þannig að það eru hátt í 50 manns frá björgunarsveitunum hérna til að byrja með. Rýmingin gekk vel og nú snýst þetta aðallega um að hafa stjórn á almenningi sem er hérna í kring og tryggja þeirra öryggi. Það er fyrst og fremst okkar markmið.“

Fyrri grein„Verðum fram undir morgun að slökkva í þessu“
Næsta greinRýmingu húsa aflétt