Rútubílstjóri fluttur á slysadeild

Rúta með sex manns innanborðs hafnaði úti í skurði við Suðurlandsveg nálægt Ingólfshvoli í Ölfusi laust eftir klukkan tíu í kvöld.

Talið er að bílstjóri rútunnar hafi fengið aðsvif og þess vegna misst stjórn á bílnum. Hann var fluttur með sjúkrabíl á slysadeild.

Fimm erlendir ferðamenn sem einnig voru í bílnum sluppu án teljandi meiðsla þrátt fyrir að talsvert högg hafi komið á bílinn þegar hann lenti í skurðinum. Lögreglan telur að farþegarnir hafi allir verið í öryggisbeltum.

Bifreiðin er töluvert mikið skemmd eftir óhappið, en hún var á vesturleið þar sem hópurinn var að ljúka ferð sinni um Gullna hringinn.

Mikill viðbúnaður var hjá lögreglu og sjúkraflutningum vegna slyssins auk þess sem tækjabíll frá Brunavörnum Árnessýslu á Selfossi var kallaður á vettvang.

Fyrri greinÆgismenn þróttminni en gestirnir
Næsta greinTugir skáta veiktust á Úlfljótsvatni – Fjöldahjálparstöð opnuð í Hveragerði