Rúta útaf við Brekkur – Einn ók framhjá lokunum

Björgunarsveitir frá Höfn, Vík, Hvolsvelli og Kirkjubæjarklausti sinna nú lokunum vega og aðstoða vegfarendur í óveðrinu sem gengur yfir Suðurland.

Lögregla óskaði eftir aðstoð við að ferja ferðmenn, sem voru í rútu sem fór útaf við Brekkur í Mýrdal, upp á Hótel Dyrhólaey. Rúturnar voru tvær en hótelstjórinn var búinn að ferja farþega annarrar þeirra upp á hótel þegar björgunarsveitina bar að.

Á leið sinni á staðinn ók björgunarsveitin fram á þrjá bíla sem voru utan vegar inn við Grafarhól og var fólk í tveimur þeirra. Ekki er vitað um þá sem voru í þriðja bílnum og er verið að skoða það mál.

Veður farið að versna við Jökulsárlón, komin er blindhríð við Litla Hof í Öræfum, við Markarfljót gengur á með hríðum.

Hringvegurinn er lokaður frá Markarfljóti að Breiðamerkurlóni. Lokunarstaðir eru einnig við Lómagnúp og Freysnes.

Samkvæmt upplýsingum frá Slysavarnafélaginu Landsbjörgu er lítil umferð á svæð‌inu og hefur nú sex bílum verið snúið við. Einn virti ekki tilmæli og ók fram hjá lokunum.

Í kvöld verður snjófjúk og blint á leiðinni austur fyrir Fjall og víða á Suðurlandi. Tekur að lægja undir Eyjafjöllum og í Mýrdal upp úr kl. 18 og um leið gerir væga þíðu. Í Öræfasveit lagast hins vegar ekki fyrr en í kvöld, líklega ekki fyrr en eftir kl. 21.

Fyrri greinFrábærir jólatónleikar á Hellu
Næsta greinSjónvarp Selfoss í loftið í kvöld