Rúta útaf í Skógarhlíð

Rúta með á sjöunda tug farþega fór útaf Þrengslavegi í Skógarhlíðarbrekku eftir hádegi í dag. Björgunarsveitir sækja fólkið og verður það flutt í fjöldahjálparstöð sem Rauði krossinn er að opna í Grunnskólanum í Þorlákshöfn.

Miklar annir eru nú hjá björgunarsveitum vegna ófærðar á Lyngdalsheiði, Mosfellsheiði, Hellisheiði, Þrengslum og á Þingvöllum.

Á Hellisheiði situr fjöldi bíla fastur en á þessari stundu er ekki vitað nákvæmlega um umfangið. Verið er að flytja 20 manns úr bílum sínum á Lyngdalsheiði og á Mosfellsheiði er talið að á milli 20-30 bílar sitji fastir.

Björgunarsveitir eru einnig að sækja ferðafólk sem kemst ekki leiðar sinnar af Þingvöllum en það bíður aðstoðar í Þjónustumiðstöðinni.