Stór rúta sem var á leið upp Kambana er stórskemmd eftir að eldur kom upp í henni laust eftir klukkan níu í kvöld. Hellisheiðin er lokuð í vesturátt á meðan unnið er að hreinsunarstarfi.
Samkvæmt upplýsingum frá Brunavörnum Árnessýslu voru tíu manns í rútunni og komust allir út ómeiddir. Slökkviliðið fékk tilkynningu um eldinn klukkan 21:04 og fóru slökkviliðsmenn frá Hveragerði á vettvang.
Vegurinn verður lokaður áfram þar sem fjarlægja þarf rútuna af vettvangi og hreinsa upp olíu sem lak af henni.
Þetta er fjórða útkallið hjá Brunavörnum Árnessýslu í þessum mánuði þar sem tilkynnt er um eld í ökutæki á Hellisheiði. Í þremur fyrri útköllunum var um minniháttar tjón að ræða.