Rúta með 30 manns festist í Krossá

Rútan á kafi í Krossá í hádeginu. Ljósmynd/Ferðafélag Íslands

Björgunarsveitir á Suðurlandi voru kallaðar út í morgun eftir að rúta með um þrjátíu manns innanborðs festist í Húsadalsvaðinu í Krossá.

Samkvæmt heimildum sunnlenska.is tókst að koma öllum farþegunum ómeiddum á þurrt. Skálaverðir Ferðafélags Íslands í Langadal mættu á vettvang og aðstoðuðu björgunarsveitir við að draga rútuna upp en til þess þurfti fjóra björgunarsveitarbíla, aðra rútu og ferðafélagstraktorinn. Eigandi rútunnar mætti með annan bíl og flutti farþegana til byggða.

Lögreglan á Suðurlandi vill vara ferðalanga við miklum vatnavöxtum í ám á hálendinu, sérstaklega á Fjallabaki og Þórsmerkursvæðinu.

Fyrri grein48 í einangrun á Suðurlandi
Næsta greinAllt í járnum hjá Hamri og Árborg