Rúta á hliðina við Pétursey

Kl. 10:58 í morgun fór rúta á vesturleið útaf Suðurlandsvegi við Klifanda skammt austan Péturseyjar og valt á hliðina. Átján farþegar voru í rútunni og bílstjóri að auki.

Sjúkraflutningar, lögregla og björgunarsveit í Vík voru kölluð til en eftir að sjúkralið úr Vík var komið á vettvang var frekari aðstoð snúið frá enda engin meiðsl á fólki.

Kl. 10:39 fékk lögregla tilkynningu um að rúta hafi runnið út af vegi í hálku við Freysnes í Öræfum í morgun. Björgunarsveitin Kári fór á vettvang og aðstoðaði fólk þar en engin slys eru á fólki og unnið að því að draga bílinn upp á veg aftur.

Veður hefur versnað töluvert á þessu svæði efir því sem liðið hefur á morguninn og akstursskilyrði eru slæm, hálka snjókoma og hvassviðri.

Slysavarnafélagið Landsbjörg áréttar að ekkert ferðaveður er á svæðinu og spáð er vonsku veðri á Austur- og Norðausturlandi í dag.