Rúmlega 500 skjálftar undir Mýrdalsjökli

512 jarðskjálftar mældust undir Mýrdalsjökli í október. Skjálftahrina hófst undir jöklinum þann 5. október og hefur verið viðvarandi síðan.

Fram kemur á vef Veðurstofunnar að stærsti skjálftinn sem mældist í mánuðinum hafi verið um fjórir og sjö skjálftar hafi verið þrír eða stærri.

Þá hafi tugir skjálfta verið meira en tveir að stærð. 380 skjálftar voru í Kötluöskjunni og um 70 undir vesturhluta Mýrdalsjökuls. Aðeins færri eða um 50 skjálftar voru undir Hafursársjökli, suður að Kötluöskjunni.

Veðurstofan hefur tekið saman alla jarðskjálfta sem mældust í október og birt upplýsingarnar sínar á vef sínum. Þar kemur einnig fram að um 1000 skjálftar hafi verið á Hengilssvæðinu, við Húsmúla og tveir þeirra hafi verið fjórir að stærð. Þeir hafi fundist vel víða um sunnan- og vestanvert landið. Skjálftarnir við Húsmúla eru tilkomnir vegna niðurdælingar Orkuveitu Reykjavíkur á affallsvatni frá Hellisheiðavirkjun.

Í Ölfusinu mældust að jafnaði rúmlega einn skjálfti á dag og áttu flestir þeirra upptök við Kross-sprunguna frá 2008.