Rúmlega 1,7 milljón króna til verkefna í Skaftárhreppi

Vinir Vatnajökuls styrkja verkefni sem falla undir rannsóknir, kynningu og fræðslu um Vatnajökulsþjóðgarð og nágrenni hans. Alls bárust Vinunum 53 styrkumsóknir árið 2015 þar sem óskað var eftir rúmlega 118 milljónum en fagráð samtakanna valdi að lokum að styrkja 22 verkefni um tæpleg 32 milljónir.

Hæstu styrkina í ár hlutu Jöklaveröld ehf fyrir Gestastofuna Hoffelli og Óbyggðasetur Íslands fyrir yfirlitssýningarnar; Líf í óbyggðum og við jaðar þeirra, sérsýning og önnur miðlun. Bæði verkefni fengu 5 milljón króna styrk. Þá fékk Þorvaldur Þórðarson 4,7 milljón króna styrk fyrir verkefnið „Eldvirkni og hraun í Vatnajökulsþjóðgarði“.

Meðal annarra styrkþega í þessari úthlutun eru Skaftárhreppur/Framkvæmdahópur um uppbyggingu ferðamannastaða í Skaftárhreppi sem fékk 750 þúsund króna styrk fyrir verkefnið „Stýring og fræðsla til ferðamanna í Eldhrauni“ og Kirkjubæjarstofa sem fékk 1 milljón króna í verkefnið „Þjóðleiðir og fyrrum ferðaleiðir í Skaftárhreppi, um aldamótin 1900“.

Vinirnir Vatnajökuls eru frjáls félagasamtök sem stofnuð voru árið 2009. Samtökin hafa nú á sex árum veitt hátt í 400 milljónum króna til fræðsluverkefna og styrkja.

Fyrri grein94. héraðsþing HSK haldið á Selfossi 12. mars
Næsta greinHÍ færir íþróttafræðinámið til Reykjavíkur