Rúmlega 127 milljónir króna í ljósleiðaralagningu á Suðurlandi

Fulltrúar sveitarfélaganna ásamt Sigurði Inga Jóhannssyni og Haraldi Benediktssyni, formanni stjórnar fjarskiptasjóðs. Ljósmynd/Stjórnarráðið

Bláskógabyggð, Flóahreppur, Hrunamannahreppur, Skaftárhreppur og Sveitarfélagið Árborg voru meðal þeirra sautján sveitarfélaga sem fengu styrk úr fjarskiptasjóði í aukaúthlutun Ísland ljóstengt. 

Samtals var um að ræða 400 milljón króna viðbótarfjárveitingu stjórnvalda til fjarskiptasjóðs til að sporna gegn samdrætti í hagkerfinu vegna kórónuveirunnar. Því til viðbótar lagði samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið til 43 milljónir króna sem framlag úr byggðaáætlun.

„Við erum óðfluga að nálgast takmark okkar að leggja ljósleiðara um nánast allt dreifbýli landsins. Með viðbótarfjárveitingu í ár er unnt að flýta slíkum framkvæmdum enn frekar. Verkefnið Ísland ljóstengt er ein af lykil forsendum búsetugæða, atvinnusköpunar og samkeppnishæfni landsins alls,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.

Alls var samið við 17 sveitarfélög um styrk úr fjarskiptasjóði en átta þeirra fá einnig úthlutað byggðastyrk úr byggðaáætlun stjórnvalda.

Bláskógabyggð fær nú 44,3 milljónir króna úr fjarskiptasjóði, Flóahreppur 10,7 milljónir króna, Hrunamannahreppur 10,8 milljónir króna, Árborg 14 milljónir króna og Skaftárhreppur 32,3 milljónir króna auk þess sem Skaftárhreppur fær 15 milljónir króna styrk úr byggðaáætlun.

Fyrri greinTveir lögregluþjónar til viðbótar smitaðir
Næsta greinHefur saumað glæsilega þjóðbúninga á alla stórfjölskylduna