Rúmfatalagerinn opnar á Selfossi

Rúmfatalagerinn mun opna nýja verslun að Austurvegi 69 á Selfossi fyrir jól. Þetta er önnur verslun fyrirtækisins á landsbyggðinni sem fyrir rekur þrjár verslanir á höfuðborgarsvæðinu og eina á Akureyri.

„Það er okkur mikil ánægja að geta glatt Selfyssinga núna fyrir jólin. Við erum gríðarlega spenntir fyrir því að koma inn á svæðið og höfum haft það bakvið eyrað í nokkurn tíma að opna verslun þarna. Þetta er stórt þjónustusvæði og ekki síst vegna umferðarinnar úr sumarhúsabyggðunum,“ sagði Bjarki Brynjarsson, markaðsstjóri Rúmfatalagersins í samtali við sunnlenska.is.

„Selfyssingar og nærsveitamenn hafa verið duglegir að sækja verslanir okkar í Reykjavík og viðskiptavinir okkar hafa margoft nefnt það við okkur hvort við ætlum ekki að opna verslun fyrir austan fjall,“ sagði Bjarki ennfremur.

Að sögn Bjarka liggur ekki nákvæmlega fyrir hver opnunardagurinn verður en stefnt er að því að opna fyrir jól. Vinna við nýju verslunina er að hefjast þessa dagana og því ekki ljóst hversu margir starfsmenn munu vinna þar.

Verslunarrýmið, sem áður hýsti Europris, er rúmir 1.200 fermetrar og segir Bjarki að það sé ákjósanleg stærð fyrir þetta svæði og allar vinsælustu vörur Rúmfatalalagersins verði í boði á Selfossi.

Fyrri greinFjórir Rangæingar á landsliðsæfingum
Næsta greinJón Daði æfir í Stavangri