Rúmar sex milljónir á Suðurland

Nítján verkefni fengu í gær úthlutað samtals 33,5 milljónum króna úr Þróunarsjóði ferðamála. Að honum standa Landsbankinn og atvinnuvegaráðuneytið. Rúmum 6 milljónum króna var veitt í verkefni á Suðurlandi.

Íslenski bærinn í Austur-Meðalholtum í Flóahreppi fékk tveggja milljón króna styrk en þar er ætlunin að gefa út yfirlit um íslenska torfbæjararfinn í ljósi vistvænnar byggingarlistar. Íslenski bærinn mun samsanstanda af heilstæðu húsaþorpi og gert er ráð fyrir að fjöldi gesta sæki það heim á næstu árum.

Friður og frumkraftar í Skaftárhreppi fengu rúmlega eina og hálfa milljón króna fyrir verkefni sem snýst um að þróa náttúrutengda upplifun fyrir menntaskólahópa í Skaftárhreppi innan Kötlu jarðvangs þar sem aðaluppsprettan er íslenskur mosi.

Orgelsmiðja Björgvins Tómassonar á Stokkseyri fékk eina og hálfa milljón króna í verkefni sem felst í því að opna orgelsmiðjuna fyrir almenningi. Sett verður upp fræðslusýning um starfsemina. Einnig verða hljóðfæri til sýnis og aðstaða útbúin fyrir tónleikahald.

Þá fékk undirbúningsfélag um bókabæ á Suðurlandi, Bókabærinn austanfjalls, eina milljón króna í styrk. Þar er ætlunin að mynda hóp samstarfsaðila sem tengjast bókum, menningu og ferðaþjónustu á Suðurlandi.

Þróunarsjóðurinn var stofnaður í tengslum við verkefnið Ísland allt árið og markmiðið með starfrækslu hans er að efla starfsemi fyrirtækja í ferðaþjónustu utan háannatíma og auka arðsemi þeirra. Þetta er í þriðja sinn sem úthlutað er úr sjóðnum og barst honum 61 umsókn að þessu sinni.

Fyrri greinKosning hafin á Sunnlendingi ársins
Næsta greinReykdal Máni vann málið gegn ríkinu