Rúmar 6 milljónir króna úr Sprotasjóði til leikskólanna í Árborg

Sigríður Birna Birgisdóttir og Anna Gína Aagestad tóku við styrkjunum fyrir hönd Goðheima og Árborgar. Hér eru þær ásamt Ásmundi Einari Daðasyni, mennta- og barnamálaráðherra og Þorsteini Hjartarsyni, skrifstofustjóra í mennta- og barnamálaráðuneytinu. Ljósmynd/Aðsend

Sveitarfélagið Árborg fékk annan af hæstu styrkjunum þegar úthlutað var úr Sprotasjóði á dögunum. Sprotasjóður styður við þróun og nýjungar í skólastarfi í leik- grunn- og framhaldsskólum í samræmi við stefnu stjórnvalda og aðalnámskrá viðkomandi skólastiga.

Árborg fékk 5 milljón króna styrk til verkefnisins Hvernig má styðja við farsæld barna í leikskóla? og þá fékk leikskólinn Goðheimar á Selfossi rúmlega 1 milljón króna styrk til verkefnisins Geymast mér í minni myndir bernskunnar.

Hvernig má styðja við farsæld barna í leikskóla?
Markmið verkefnisins Hvernig má styðja við farsæld barna í leikskóla? er þríþætt og tengist innleiðingu ákvæði laga um samþætta þjónustu í þágu farsældar barna. Í fyrsta lagi er markmiðið að efla samstarf heimila og leikskóla með markvissri fræðslu og leiðsögn fyrir foreldra í uppeldishlutverki sínu sem leikskólastjórar móta og sjá um. Í öðru lagi verða leikskólakennarar og annað starfsfólk þjálfað í að styðja við félags- og tilfinningahæfni barna í leik og hlúa að vináttu þeirra og samskiptum. Í þriðja lagi verða leikskólakennarar og annað starfsfólk þjálfað í að skapa vettvang til að hlusta á sjónarmið barna og virkja áhrifamátt þeirra og þátttöku í daglegu starfi í leikskólanum.

Allir leikskólar í Árborg munu vinna saman að verkefninu í samstarfi við tvo rannsakendur við Menntavísindasvið Háskóla Íslands sem munu veita ráðgjöf og fræðslu og fylgjast með starfendarannsókninni, skrá ferlið og skrifa um það ritrýnda grein.

Geymast mér í mynni myndir bernskunnar
Markmið verkefnisins Geymast mér í mynni myndir bernskunnar í Goðheimum er að stuðla að góðri geðheilsu og vellíðan barna, vinna með styrkleika þeirra og að þau öðlist færni til að takast á við þær áskoranir sem þau mæta á lífsleiðinni. Nemendum og starfsfólki er kennt að nota einfaldar aðferðir til að efla sjálfsmynd og vellíðan og verða besta útgáfan af sjálfum sér, til dæmis með einföldum öndunaræfingum, jóga, slökun og hugleiðslu ásamt fræðslu og verkefnum. Á Goðheimum hefur verið lögð áhersla á hvíld og næringu í leikskólanum og munu starfsfólk og foreldrar einnig fá fyrirlestra um svefn og heilsu barna.

56,8 milljónum úthlutað úr sjóðnum
Sprotasjóður úthlutaði alls 56,8 milljónum króna til 25 skólaþróunarverkefna fyrir skólaárið 2023–2024. Mennta- og barnamálaráðherra og formaður stjórnar sjóðsins afhentu styrkina við hátíðlega athöfn í mennta- og barnamálaráðuneytinu.

Fyrri greinGulla djazzar í Tryggvaskála
Næsta greinDjazzinn dunar í Reykjadalsskála