Rúmar 173 milljónir króna í verkefni á Suðurlandi

Rúmum 173 milljónum króna verður veitt til verkefna á Suðurlandi úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða á þessu ári. Hæsti staki styrkurinn fer til verkefna í Landmannalaugum.

Þetta er sjötta árið sem Framkvæmdasjóður ferðamannastaða úthlutar styrkjum. Hlutverk sjóðsins er meðal annars að stuðla að uppbyggingu, viðhaldi og verndun ferðamannastaða og leitast við að tryggja öryggi ferðamanna og vernda náttúru landsins.

Rangárþing ytra fékk stærsta styrkinn, 60 milljónir króna vegna 1. áfanga Landmannalauga. Styrkurinn er til að hefja framkvæmdir við nauðsynlegar rofvarnir, nýtt bílastæði og uppbyggingu aðstöðu við Námakvísl samkvæmt verðlaunatillögu í samkeppni.

Sveitarfélagið Ölfus fær tæpar 26,2 milljónir króna til endurbóta á stígakerfi í Reykjadal en þar þarf að bregðast við aðkallandi vandamálum í náttúruvernd og öryggismálum á þessu vinsæla ferðamannasvæði.

Skaftárhreppur fær 10,9 milljónir króna til að bæta aðgengi, vernda náttúru og auka öryggi með stígagerð og breytingu á skipulagi í Fjaðrárgljúfri. Þetta er mjög mikilvægt verkefni með tilliti til náttúruverndar þar sem óafturkræft jarðvegsrof blasir við á þessum fjölsótta ferðmannastað, ef ekkert verður að gert.

Hrunamannahreppur fær 2 milljónir króna í styrk til að endurhlaða steinveggi í efri hluta Hrunalaugar og byrja á stígagerð frá bílastæði að Hrunalaug í þeirri gönguleið sem nú þegar er fyrir hendi.

Rangárþing eystra og Katla jarðvangur fá 1,6 milljón króna styrk til að breyta gildandi deiliskipulagi Skóga til endurbóta og aðkomu fyrir ferðamenn við Skógafoss. Breyting á deiliskipulagi gerir ráð fyrir að færa alla umferð ökutækja út fyrir friðlýsta svæðið og einnig tjaldsvæðið.

Flóahreppur fær 1,5 milljónir króna til að bæta við merkingar á fleiri tungumálum við Urriðafoss, lagfæra stikur, göngustíga og bæta ofaníburði á aðkomuveg og bílaplan.

Skógræktin hlaut samtals 17,7 milljónir króna til þriggja verkefna á Suðurlandi. Frágangs við Hjálparfoss, viðhald gönguleiða og áningarstaðar á Kirkjubæjarklaustri og uppbyggingu og viðhald á Þórsmerkursvæðinu. Stærsti hluti upphæðarinnar, 15 milljónir króna, er úthlutað vegna Þórsmerkur.

Umhverfisstofnun fékk sömuleiðis þrjá styrki til verkefna á Suðurlandi. 30 milljónir króna til framhalds framkvæmda við stíga og útsýnispalla við Geysi, 12 milljónir króna til endurbóta á Laugaveginum undir Brennisteinsöldu og 8 milljónir króna til að breikka göngustíg frá Gullfosskaffi niður að hringtorgi.

Brynjar Sigurðsson á Heiði í Biskupstungum fær 2 milljónir króna til að bæta göngustíga, merkingar og innviði við fossinn Faxa. Verkefnið er mjög aðkallandi vegna náttúruverndar og öryggismála en fjöldi ferðamanna hefur aukist hratt við Faxa.

Í sömu sveit fá Efri-Reykir ehf. 1,3 milljón króna styrk til að endurbæta gönguleið frá bílastæði upp með Brúará að Brúarfossi og setja upp litla göngubrú á Vallá. Brúarfoss verður sífellt vinsælli og þekktari og skemmdir hafa orðið vegna átroðnings í nágrenni hans og á stígnum.

Eins og sunnlenska.is greindi frá í gær hefur ráðherra einnig gengið til samninga við Vegagerðina um þróun á ölduspákerfi vegna Reynisfjöru og Kirkjufjöru. Fjármögnun verkefnisins, 20 milljónir króna, er af fé sem sett var til hliðar af fjárveitingum framkvæmdasjóðsins í þágu öryggismála.