Rukka þá sem gista utan tjaldsvæða

Rekstraraðilar tjaldsvæðanna í Hveragerði hafa heimild til að innheimta gjald af öllum þeim gestum bæjarins sem gista utan merktra tjaldsvæða og að einhverjum ástæðum hafa ekki kost á að færa sig inná tjaldsvæðin.

Gisting á almannafæri hefur verið bönnuð í Hveragerði frá árinu 2009. Samkvæmt lögreglusamþykkt Hveragerðis er ekki heimilt að gista í tjöldum, húsbílum, hjólhýsum og tjaldvögnum á almannafæri í sveitarfélaginu utan sérmerktra svæða.

Hafa umsjónarmenn tjaldsvæðanna keyrt um bæjarfélagið á hverjum degi og bent þeim sem hafa sett upp tjöld eða annan viðlegubúnað á að flytja sig á viðurkennd tjaldsvæði eða greiða gjald að öðrum kosti. Gjaldið er það sama og í gildi er á tjaldsvæðum bæjarfélagsins.