Rukkað fyrir próftöku í Fjölheimum

Háskólafélag Suðurlands hefur ákveðið að rukka alla nemendur um gjald fyrir þau próf sem eru tekin hjá félaginu í þekkingarsetrinu Fjölheimum á Selfossi.

Hingað til hafa nemendur við Háskóla Íslands og Háskólann á Akureyri ekki verið rukkaðir um próftökugjöld en breytingin er tilkomin vegna stærra húsnæðis og betri þjónustu sem Háskólafélagið veitir í nýju aðstöðunni í Fjölheimum.

Fyrir tveggja klukkustunda próf og styttri þarf nú að borga 3.000 kr. fyrir en 4.000 kr. fyrir lengri próf. Tólfþúsund króna þak er á greiðslu fyrir próftökuna.

„Þegar við fluttum okkur um set yfir í Fjölheima batnaði aðstaða fjarnema hjá okkur til mikilla muna. Fjárfest var í sérstakri lesstofu fyrir nemendur og auk þess hafa þeir kaffistofu út af fyrir sig, auk aðgangs að kennslustofum eftir þörfum, tölvuneti og fjarfundarbúnaði. Með hliðsjón af ofanskráðu var ákveðið að samræma gjaldskrána þannig að nemendum væri ekki mismunað eftir því í hvaða skóla þeir stunduðu námið,“ segir Sigurður Sigursveinsson, framkvæmdarstjóri Háskólafélag Suðurlands.

Sigurður segir jafnframt að gjaldskráin væri hvetjandi fyrir nemendurna að nýta sér aðstöðuna, en þeir sem nýta sér aðstöðuna í Fjölheimum borga 12.000 kr. fyrir önnina og þurfa þá ekki að borga próftökugjald.

„Það er þekkt í fjarnámi að félagslegur stuðningur skiptir verulegu máli til að draga úr brottfalli,“ segir Sigurður og bætir því við að öllum skráðum fjarnemum hjá þeim var sent bréf 14. febrúar sl. þar sem þessi gjaldskrá var kynnt. Nú þegar hafa rúmlega 30 nemendur nýtt sér tilboðið um greiðslu fyrir lesaðstöðuna.

„Til upplýsingar má geta þess að Háskólafélagið fær enga greiðslu frá háskólunum fyrir þjónustu þess við fjarnema. Við sjáum samt um að prenta út prófin, fjölfalda þau og hefta, leggja prófin fyrir og senda þau síðan til háskólanna“ segir Sigurður.

Á síðasta ári voru um 900 próftökur fjarnema skráðar hjá Háskólafélaginu, flestar í desember og maí, en próf voru haldin alla tólf mánuði ársins. Að sögn Sigurðar færist það í vöxt að háskólakennarar mælist til þess að nemendur taki nokkur tímapróf á kennslutíma hjá þeim auk prófanna í maí og desember.

Örn Gunnþórsson sem stundar fjarnám í þjóðfræði frá Háskóla Íslands segir að honum finnist eins og verið sé að stilla fjarnemum upp við vegg með gjaldtökunni.

„Gjaldtakan er álíka há og bílferð til Reykjavíkur og þar af leiðandi hefur kennslumiðstöðin gert sig algerlega óþarfa,“ segir Örn. „Ég hefði viljað hafa eitthvað val um þetta, t.d. að taka þá prófið í minna húsnæði, því ég þarf enga þjónustu aðra en skrifborð og yfirsetumann meðan á prófi stendur og má auðvitað ekki þyggja neina nánari þjónustu meðan á prófinu stendur. Mér fannst þessi kennslumiðstöð spennandi kostur fyrir okkur en finnst mjög ólíklegt að ég nýti mér þjónustuna með þessu sniði. Ég fer þá bara frekar á kaffihús ef ég þarf næði,“ segir Örn sem er allt annað en sáttur við þetta gjald.

Gjald vegna próftöku fyrir þá nemendur sem stunda fjarnám frá Háskóla Íslands þekkist ekki á Akureyri, Akranesi, Þórshöfn, Laugum, Vestmannaeyjum og víðar á landinu. Samkvæmt heimildum sunnlenska.is hafa þeir nemendur sem stundað hafa fjarnám frá Háskóla Íslands í Bandaríkjunum, Svíþjóð og Þýskalandi ekki þurft að borga fyrir að taka sín próf þar í landi.

Fyrri greinFinnbogi og Þórður Már: 10 milljarða gjöf VG og S úr galtómum ríkissjóði – á ári!
Næsta greinLést í Herdísarvík