Rukkað fyrir leigu á kirkjum í Hrunaprestakalli

Sr. Óskar H. Óskarsson, prestur í Hruna segir frá því í nýjasta fréttabréfi Hrunamannahrepps að á fundi sóknarnefndanna í janúar hafi verið ákveðið að setja upp viðmiðunargjaldskrá fyrir fólk sem býr utan sóknanna og óskar eftir afnotum af kirkjunum til sérathafna.

Er þá einkum átt við skírnarathöfn og hjónavígslu.

Segir Óskar að fólki þyki mjög eðlilegt að greiða eitthvað fyrir afnot af kirkju og hefur þá stundum sett einhverjar krónur í kirkjubaukinn þar sem ekki hefur verið tilgreind nein sérstök upphæð.

„Með því að setja upp viðmiðunargjald þá fá allir sömu svör þegar spurt er um kostnað vegna afnota af kirkju. En gjaldinu er ætlað að koma til móts við kostnað sem m.a. snýr að kirkjuvörslu, þrifum o.fl. vegna athafnanna.

Rætt var um upphæðir eins og 3.000 kr. fyrir afnot af kirkju vegna skírnar og tíu þúsund vegna hjónavígslu. Til að byrja með verður ekki um stranga innheimtu að ræða heldur verður þessum tilmælum beint til fólks vilji það styðja við kirkjuna og kirkjustarfið í viðkomandi sókn,“ segir séra Óskar í pistli sínum.

Fyrri greinStofnar minningarsjóð til styrktar tónlistarfólki
Næsta greinSunnlendingar bestu ballgestir landsins