Rúður og speglar brotnuðu í björgunarsveitarbíl

Bíll Dagrenningar með brotnar rúður og spegla.

Gul veðurviðvörun var í dag á Suðurlandi og stóðu félagar í Björgunarsveitinni Dagrenningu á Hvolsvelli vaktina við Steina undir Eyjafjöllum. Þar var haldið uppi „mjúkri lokun“ þar sem átti að stoppa af hjólhýsi og ferðabíla.

Bíll Dagrenningar var staddur á malbiki við Steina og ekkert að veðrinu, aðeins um 15 m/sek vindur en svo kom hvellur eða vindhviða sem mældist 49 m/sek.

Í hviðunni brotnuðu báðar afturrúðurnar í bíl björgunarsveitarinnar og báðir hliðarspeglarnir. „Viðvörunin var kanski ekki óþörf og stundum vita Vegagerð og veðurfræðingar hverju þeir eru að spá,“ segir í Facebookfærslu björgunarsveitarinnar.

Dagrenning sinnti fleiri verkefnum í dag; rútubíll var dreginn upp í vatnavöxtum og blautir feðralangar við Bláfjallakvísl óskuðu eftir aðstoð þar sem þeir voru stopp. Þegar björgunarsveit mætti á vettvang var búið að koma þeim í skála í Hvanngili.

Fyrri greinEimskip og Kótelettan endurnýja samstarfssamning
Næsta greinReynslusigur á Stokkseyri og ellefu mörk á Hvolsvelli