Rottuvellir rifnir í dag

Húsið Fossnes á bökkum Ölfusár verður rifið í dag en það hefur staðið autt í áratugi.

Fossnes er í eigu Sláturfélags Suðurlands en ákveðið var að rífa það til að hreinsa til á lóðinni.

“Húsið er ónýtt og engin prýði af því þannig að við ákváðum að hreinsa til þarna. Það stendur ekki til í bili að fara í uppbyggingu á þessari lóð,” sagði Einar Hjálmarsson, stöðvarstjóri SS á Selfossi, í samtali við sunnlenska.is.

Húsið var byggt sem íbúðarhús árið 1945 en síðar voru þar íbúðir fyrir starfsmenn sláturhúss SS á Selfossi. Rottugangur var í húsinu sem varð þá þekktara í seinni tíð undir nafninu Rottuvellir.

Starfsmenn Borgarverks á Selfossi sjá um að rífa húsið en byggingarefnið er flokkað um leið og húsið er rifið. Þannig mátti sjá gröfumanninn Þorstein Þór Eyvindsson fara nettum höndum um húsið í morgun þegar hann flysjaði bárujárnsklæðninguna af því með risastórri greip.

Fyrri greinKristinn með silfur um hálsinn
Næsta greinFyrsta rallkeppni ársins hefst í kvöld