Rör dæluskipsins brotnaði

Rör dæluskipsins Skandia brotnaði við dýpkun Landeyjahafnar á laugardag. Rörið fór þó ekki í sundur og var hægt að halda dælingu áfram.

Atvikið átti sér stað þegar verið var að bakka dæluskipinu í hafnarmynninu en rörið hangir niður úr skipinu aftanverðu.

Högg kom á dælurörið þegar kröftug alda fór undir skipið. Gert hefur verið við rörið en ekki hefur verið hægt að dýpka í Landeyjahöfn frá því á sunnudag vegna veðurs og sjólags.

Hjá Siglingastofnun eru menn þó bjartsýnir á framhald mála þar sem nýlegar mælingar sýna að verulega hafi dregið úr sandburði við höfnina.

RÚV greindi frá þessu