Róleg vika í Rangárþingi

Liðin vika var með rólegra móti í umdæmi lögreglunnar á Hvolsvelli, helgin góð og umferð með minnsta móti.

Tvö minniháttar umferðaróhöpp voru tilkynnt til lögreglu í vikunni, engin slys, skemmdir litlar á ökutækjunum og í báðum tilfellum mátti rekja óhöppin til hálku.

Veðrið var ódælt, sér í lagi framan af vikunni, snjór og hálka, og margir vegfarendur lentu í vandræðum sökum þess og þurftu á aðstoð að halda.

Lögreglan hvetur vegfarendur til að fara varlega, hálkan er mikil og færð fljót að spillast eins og staðan er nú.