Rokkhlaup í Hveragerði

Hvergerðingar vissu ekki hvaðan á sig stóð veðrið um kl. 22 í gærkvöldi þegar þeir sáu sex unga karlmenn hlaupa þar kviknakta um götur.

Íbúar höfðu samband bæði við lögregluna á Selfossi og Neyðarlínuna. Piltarnir voru á bak og burt þegar lögreglan kom á vettvang og hafa því ekki fengist skýringar á þessu uppátæki ungu mannanna.

Samkvæmt heimildum sunnlenska.is ganga hlaup sem þessi undir ýmsum nöfnum og eru ýmist manndómsvígslur eða hlaupurunum hreinlega til skemmtunar.

Á Selfossi eru þau kölluð rokkhlaup, en bibbahlaup í Þorlákshöfn. Hvað hlaup sem þessi nefnast í Hveragerði er okkur ekki kunnugt um en þeir sem hafa ábendingar um það geta sent tölvupóst á netfrett@sunnlenska.is

Fyrri greinRekstur brugghússins tryggður
Næsta greinVilja kaupa hlut nágrannanna í Stórólfshvoli