Rödd þjóðarinnar fönguð við ströndina

Halldór Gunnar Pálsson, kórstjóri Fjallabræðra, er enn á ferð um landið til að taka upp raddir í þjóðkórinn sem syngur undir nýju lagi Fjallabræðra, Ísland.

Lagið er stórt og mikið og eru margir sem koma aðflutningi þess, þ.á.m Fjallabræður, hljómsveit Fjallabræðra, Unnur Birna Björnsdóttir og lúðrasveit Vestmannaeyja. Halldór Gunnar samdi lagið en textann samdi Jökull Jörgensen. Unnur Birna, Bassadóttir í Mánum, syngur einsöng í laginu og kom einnig að því að semja það.

„Eftir að lagið fór að taka á sig mynd kviknaði sú brjálaða hugmynd að leggja af stað í það verkefni að ná að fanga „Rödd Þjóðarinnar“ inn á lokakafla lagsins. Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef eru 10% þjóðarinnar skilgreiningin á rödd þjóðarinnar og hana ætla ég að fanga,“ segir Halldór Gunnar.

Hann hefur því farið hringinn í kringum landið frá því í sumar til að taka upp raddir og í morgun kom hann við í Barnaskólanum á Stokkseyri og eftir hafragrautsboð lá leiðin í Barnaskólann á Eyrarbakka. Nemendur Barnaskólans tóku vel undir sönginn og skemmtu sér vel við upptökurnar.

Fyrri greinOpna þjónustuskrifstofu á Selfossi
Næsta greinEinar ráðinn forstöðumaður Höfuðborgarstofu