Rjúpnaveiðar hefjast á sunnudag

Rjúpa. Ljósmynd/Umhverfisstofnun

Rjúpnaveiðitímabil ársins hefst sunnudaginn 1. nóvember og verður með sama sniði og í fyrra.

Þannig verður heimilt að veiða frá og með 1. nóvember til og með 30. nóvember, frá og með föstudögum til og með þriðjudögum á því tímabili. Veiðar eru bannaðar á miðvikudögum og fimmtudögum innan tímabilsins.

Umhverfisstofnun hvetur veiðimenn til að gæta hófs í veiðum eins og undanfarin ár og athuga hvort veiðikortið sé í gildi áður en gengið er til rjúpna. Veiðimenn eru einnig hvattir til að fylgja sóttvarnarreglum og tilmælum sem í gildi eru á hverjum tíma sem og tilmælum lögregluyfirvalda eða aðgerðastjórna almannavarnanefnda einstakra landshluta.

Óheimilt er að veiða á þeim hluta Suðvesturlands sem birtist á mynd hér að neðan. Svæðið markast í norðri af lögsagnarumdæmi Reykjavíkur, Mosfellsbæ, austurhluta Mosfellsheiðar í Grímsnes- og Grafningshreppi og Skálafells og Skálafellshálsi í Grímsnes- og Grafningshreppi, Bláskógabyggð og Kjósarhreppi. Hið friðaða svæði í Skálafelli og Skálafellshálsi markast af Kjósarskarðsvegi (48) frá vegamótum við Þingvallaveg (360) að vegamótum við Meðalfellsveg (461) og þaðan að brú á Svínadalsá og er ánni síðan fylgt að mörkum Reykjavíkur um Svínaskarð. Norðurhluti svæðisins markast síðan af Þingvallavegi frá gatnamótum Kjósarskarðsvegar að Grafningsvegamótum og þaðan af línu sem dregin er í austur frá Grafningsvegamótum í Þingvallavatn. Svæðið markast í austri af Þingvallavatni og fylgir síðan austurbakka Sogs og Ölfusár til sjávar.

Fyrri greinInger Erla kjörin forseti ungra jafnaðarmanna á Suðurlandi
Næsta greinÞG verktakar buðu lægst í brú yfir Jökulsá