Rjúpnaveiðin hefst í dag

Í dag hefst rjúpnaveiðitímabilið og reikna má með að þúsundir rjúpnaskyttna arki til fjalla um helgina eða á næstu vikum í leit að jólabráðinni.

Með aukinni tækni, þekkingu og breyttri ferðahegðun hefur útköllum björgunarsveita vegna rjúpnaskyttna fækkað á síðustu árum. Þau eru þó enn til staðar og vill Slysavarnafélagið Landsbjörg brýna fyrir rjúpnaskyttum að hafa eftirfarandi í huga.

  • Alltaf skal skilja eftir ferðaáætlun. Slíkt má gera hjá björgunarsveitunum á vefnum www.safetravel.is. Þar má velja vöktun og er þá fylgst með öruggri heimkomu.
  • Hala niður 112 snjallsímaforritinu og hafa tilbúið til notkunar í símanum
  • Kanna vel veðurspá. Ekki ana út í tvísýnar aðstæður þrátt fyrir að fáir dagar séu til veiða.
  • Vera með nauðsynlegan öryggisbúnað s.s. kort, GPS tæki, áttavita, fjarskiptatæki og sjúkratösku.
  • Vera í og með réttan fatnað. Gott er að fatnaður sé í þremur lögum og að ysta lagið sé vatns- og vindhelt.
  • Þrátt fyrir að hafa skilið eftir ferðaáætlun skal setja miða í framrúðu bílsins þar sem fram kemur hvert þú fórst og hvenær þú ætlar að koma aftur.

Á vefsíðu Slysavarnafélagsins Landsbjargar má finna góð ráð um útbúnað, tilkynningar ef aðstæður eru erfiðar og leiðbeiningar um útfyllingu ferðaáætlunar. Förum varlega á veiðum, njótum útivistar og náttúru landsins á öruggan hátt og tryggjum það að allir komi heilir heim.

Fyrri greinLeikfélag Selfoss frumsýnir Maríusögur
Næsta greinFrábærir tónleikar í fokheldum sal