Rjúpnaskyttur gómaðar innan þjóðgarðsins

Lögreglan á Suðurlandi hafði af rjúpnaskyttum innan marka þjóðgarðsins á Þingvöllum í eftirlitsferð með þyrlu Landhelgisgæslunnar síðastliðinn laugardag.

Laganna verðir fundu skytturnar sunnan undir Botnsúlum þar sem allar skotveiðar eru bannaðar. Auk þess að vera á bannsvæði var skráningu skotvopna ábótavant og leyfismál í ólagi. Byssurnar voru því gerðar upptækar.

Þyrlan lenti einnig á Uxahryggjaleið norðan við Ármannsfell þar sem menn voru að tygja sig til veiða. Þeir voru með allt sitt á hreinu, lögleg skotvopn auk gildra skotvopnaskírteina og veiðikorta.

Síðar um daginn var svo flogið yfir Skjaldbreið, Hlöðufell og allt norður að Bláfelli en ekkert bar þar til tíðinda.

Frá þessu er greint á heimasíðu Landhelgisgæslunnar.

Fyrri greinHvernig líður börnunum okkar?
Næsta greinFrístundaskólinn og félagsmiðstöðin flytja í nýtt húsnæði