Rjúpnaskyttur gómaðar í þjóðgarðinum

Lögreglan á Selfossi gómaði tvær rjúpnaskyttur á friðuðu svæði í þjóðgarðinum á Þingvöllum um miðjan dag í dag. Lögreglan naut liðsinnis þyrlusveitar Landhelgisgæslunnar við að finna skytturnar.

Lögreglan fékk tilkynningu um mennina um klukkan hálf tvö í dag og óskaði lögreglan eftir aðstoð frá þyrlu Landhelgisgæslunnar. Hún var í æfingaflugi í nágrenninu og gat því brugðist skjótt við.

Þyrlan lenti á Selfossi laust fyrir klukkan tvö og sótti þangað lögreglumann og fundust veiðimennirnir fljótlega í framhaldinu í þjóðgarðinum.

Lögregla tók skýrslu af mönnunum á vettvangi en samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni gátu þeir ekki gefið fullnægjandi skýringar á ferðum sínum. Annar þeirra bar því við að hafa ekki vitað að hann væri á friðlýstu svæði. Mennirnir höfðu ekki náð að veiða fugla en hald var lagt á skotvopn þeirra og skotfæri.

Fyrri greinHarður árekstur í Þorlákshöfn
Næsta greinBjörguðu rjúpnaskyttu úr sjálfheldu