Rjómatertukast á Kjötsúpuhátíð

Dagana 26. – 28. ágúst fer fram hin árvissa Kjötsúpuhátíðin á Hvolsvelli. Hátíðin hefur verið haldin til fjölda ára og hefur sjaldan verið glæsilegri.

Í tilkynningu frá hátíðarhöldurum segir að mörg áhugaverð, svo ekki sé kveðið fastar að orði, dagskráratriði séu fyrirhuguð. Með þeim áhugaverðari er rjómatertukast á milli fulltrúa allra flokka sem bjóða fram í alþingiskosninunum í ár. Meðal keppanda eru Ragnheiður Elín Árnadóttir ráðherra og alþingismennirnir Silja Dögg Gunnarsdóttir og Páll Valur Björnsson.

Dagskráin Kjötsúpuhátíðarinnar hefst í rauninni á föstudagskvöldinu þegar íbúar Rangárþings eystra og þeirra gestir rölta á milli húsa og þiggja súpu hjá sveitungum sínum.

Á laugardeginum verður einnig keppt í VatnKnattleik sem er óhefðbundinn fótbolti með skrítnum reglum þar sem markverðirnir verða með vatnsslöngur frá Brunavörnum Rangárvallasýslu til að verja boltann. Fyrirtækin Southcoast Adventure & Midgard Adventure munu etja kappi. Þetta verður blautt og vel skemmtilegt. Í lok kvölds verður Vallarsöngur þar sem þeir Halldór Hrannar Hafsteinsson, Árni Þór Guðjónsson og Helgi Hermannsson stýra fjöldasöng. Fjörinu lýkur svo með sveitaballi með hljómsveitinni Albatross.

Dagskráin á laugardeginum er vegleg og allir fjölskyldumeðlimir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi. Dagskrána má sjá hér að neðan:

Kynnir hátíðarinnar er Bjarni töframaður.

13:00 Setning – Ísólfur Gylfi sveitarstjóri setur hátíðina
13:10 Leikhópurinn Lotta
13:40 Sveitarlistamaður Rangárþings eystra valin
13:45 Írena Víglundsdóttir flytur nokkur lög
14:00 Bjarni töframaður fær alla til að gleðjast.
14:20 Umhverfisverðlaun Rangárþings eystra afhent
14:30 Rjómatertukast – Fulltrúar stjórnmálaflokka keppa.
15:00 Súpa í boði SS
15:30 Upplestur á textum eftir sveitung
15:40 Barnakór Hvolsskóla undir stjórn Ingibjargar Erlingsd.
16:00 VatnKnattleikur – Midgard & South Coast – Í boði N1
16:20 Sigurvegarar í skreytingakeppni tilkynntir
16:30 Polla Pönk á Krakka- & fjölskyldufjöri hátíðarsviði
21:00 Brenna og Vallarsöngur. Flugeldasýning í boði Dagrenningar
23: 30 Ball með Albatross

Sunnudagur 28. ágúst
10:30 Söguganga um Hvolsvöll. Brottför frá íþróttahúsinu