Risatjald björgunarfélagsins ónýtt eftir skemmdarverk

Skemmdarverk voru unnin á risatjaldi Björgunarfélags Árborgar þar sem það stóð í Sigtúnsgarðinum á Selfossi með þeim afleiðingum að tjaldið rifnaði og er ónýtt.

Tjaldinu var tjaldað í Sigtúnsgarðinum í aðdraganda Kótelettunnar og var síðast notað á 17. júní. Vegna anna hjá Björgunarfélaginu síðustu misseri, aðallega vegna leitar í Fljótshlíðinni, dróst að taka niður tjaldið.

Einhverjir óprúttnir aðilar skáru á himininn í tjaldinu sem olli því að dúkurinn varð misstrekktur þannig að mikið vatn safnaðist á aðra hliðina í rigningunni síðustu daga. Þegar byrjað var að eiga við dúkinn þá rifnaði hann meira og meira þannig að ekki varð við neitt ráðið og því fór sem fór.

Samkvæmt upplýsingum frá björgunarfélaginu rifnaði dúkurinn af manna völdum en gatið var augljóslega gert með hníf eða öðru áhaldi.

Tjaldið hefur fylgd björgunarfélaginu í yfir tuttugu ár og verið í notkun á mörgum útihátíðum, hestamannamótum og brúðkaupum auk þess sem það var það notað á heimsmeistarmótinu í handbolta árið 1995 og hefur aldrei verið skemmt fyrr en nú.

Dúkur á svona tjald kostar að minnsta kosti tvær milljónir króna þannig að tjónið er mikið fyrir björgunarfélagið og eru félagsmenn að sjálfsögðu afar vonsviknir.

Fyrri greinUnnið að jarðvegsframkvæmdum á Eyrarbakka
Næsta greinReykræst í Iðu