Risastórt geitungabú á Selfossi

Stærðarinnar geitungabú fannst milli sperra í bílskúrsþaki við Rauðholt á Selfossi fyrr í vikunni.

Verið var að skipta um klæðningu á bílskúrsþakinu þegar smiðirnir komu niður á búið sem er 42 sentimetrar þar sem það er breiðast og 15 sm þykkt. Þetta er sannkallað fjölbýlishús, með rúmgóðum kjallara og glæsilegri þakíbúð. Útveggirnir eru eins og fallega skreytt marengsterta.

Erling Ólafsson, skordýrafræðingur hjá Náttúrufræðistofnun, segir að um holugeitung (Vespula vulgaris) sé að ræða og að búið hafi fengið að þróast og þroskast til lokastigs. „Stærðin er mjög eðlileg fyrir þær forsendur og staðsetningu inni á þaki þar sem íbúarnir þurfa ekki að eyða tíma og orku í að grafa sér holu í jörð,” sagði Erling í samtali við sunnlenska.is.

Holugeitungurinn hefur búið í bílskúrsþakinu í Rauðholtinu undanfarin tvö sumur. Hann býr sér til bú á hverju sumri og því er þarna í raun og veru um sitthvort búið að ræða hjá „húseigandanum”. Töluvert er af dauðum flugum í búinu en drottningin hefur komið sér fyrir í holu einhversstaðar annarsstaðar þar sem hún sefur til vors. Erling útskýrir þetta: „Á þessu stigi hafa fyrrum íbúar búsins yfirgefið það með öllu. Á myndunum má sjá nokkur löngu dauð kvikindi en stundum daga síðustu íbúarnir uppi og deyja drottni sínum á heimilinu, eins og margir af okkar tagi kjósa öðru fremur.”

Myndir af búinu eru í myndasafninu hér til hægri.

Fróðleikur um holugeitung á pödduvef Náttúrufræðistofnunar

Attached files