Risahamborgarinn kom Sunnulæk í úrslit

Krakkarnir í 9. GHG í Sunnulækjarskóla lentu í 2. sæti í stærðfræðikeppninni BEST sem stóð yfir í vetur. Verkefni um risahamborgara kom bekknum í tíu liða úrslit.

Krakkarnir byrjuðu á að keppa í þrautalausnum í skólanum í haust þar sem 9.GHG komst áfram í tíu liða úrslit á landsvísu. Þau gerðu stórt bekkjarverkefni um stærðfræði og orku, þar sem þau reiknuðu m.a. hve stóran hamborgara þyrfti að borða til að fá sömu orku og losnar við Suðurlandsskjálfta.

„Þau komust að því að hamborgarinn hefði þvermálið 1,6 km, sem er svipað og Tryggvagata og vera 738 m á hæð. Hann myndi því þekja Selfoss og vera hærri en Ingólfsfjall,” sagði Guðbjörg Helga Guðmundsdóttir, umsjónarkennari, stolt af sínum krökkum í samtali við sunnlenska.is. Bekkurinn vann líka skýrslu um rannsóknir sínar, gerðu líkan af hamborgaranum yfir korti af Selfossi og skiluðu dagbók.

Þá voru valdir fjórir fulltrúar bekkjarins til að kynna verkefnið í undanúrslitum með glærusýningu auk þess sem þau sýndu líkanið og kepptu í þrautalausnum í Háskóla Íslands. Eftir það komst liðið í þriggja liða úrslit og atti þar kappi við Hagaskóla og Giljaskóla í þrautalausnum á sviði.

Úrslitin urðu þannig að Sunnulækjarskóli lenti í 2. sæti á eftir Hagaskóla í spennandi og skemmtilegri keppni. Bekkurinn fékk 80 þúsund króna peningaverðlaun fyrir 2. sætið.