Rímspillirinn ruglar skólana í ríminu

Sviðaunnendur verða að bíða í viku til viðbótar áður en þeir blóta þorra. Ljósmynd/Wikipedia

Villa var í skóladagatölum 2023-2024 sem gefin voru út í sumar, þar sem bóndadagur og konudagur voru á röngum dögum. Hið rétta er að bóndadagurinn 2024 er 26. janúar og konudagurinn 25. febrúar en ekki viku fyrr eins og misritaðist í skóladagatalinu.

Samband íslenskra sveitarfélaga gefur út skóladagatalið og að sögn Ingibjargar Hinriksdóttur, tækni- og upplýsingafulltrúa Sambandsins, uppgötvaðist villan ekki fyrr en fyrir skömmu, þegar Sambandið fékk ábendingu frá einum skólanna vegna þessa.

„Vandræðin með skóladagatalið í ár snúast um það að við höfum notast við vef sem heitir Dagarnir.is og þar var þessi villa þegar dagatalið var búið til í upphafi, líklega fyrir 3-4 árum síðan. Á Dagarnir.is eru mun fleiri upplýsingar en í almanaki Háskóla Íslands og því mun þægilegra að notast við hann,“ sagði Ingibjörg í samtali við sunnlenska.is.

Ástæðan fyrir þessari tilfærslu er að árið 2023 er rímspillisár. Rímspillisár er þegar gamlársdagur ársins á undan er laugardagur og næsta ár á eftir er hlaupár. Gamlársdagur 2022 var laugardagur og árið 2024 er hlaupár. Af því leiðir að árið 2023 er rímspillisár og þess vegna eru upphaf Þorra og Góu viku síðar á árinu 2024. Bóndadagurinn verður 26. janúar og konudagur 25. febrúar. Síðasta rímspilliár var árið 1995 en rímspillisár eru oftast á 28 ára fresti.

Fyrri greinErna Hrönn á við þrjár systur
Næsta greinEldsneytissölu hætt við Litlu kaffistofuna